28.7.05

Lög og samþykktir FÍÚ

Samþykktir
(laws and statutes)

Félags íslenskra útfararstjóra


I. kafli
Heiti félagsins, heimili og hlutverk

1. gr.
Félagið heitir “Félag íslenskra útfararstjóra “, skammstafað FÍÚ. Heimili þess og varnarþing
er í Reykjavík
2. gr. Tilgangur félagsins er:
· Að efla samheldni með útfararstjórum.
· Að viðhalda og auka faglega þekkingu félagsmanna
· Að setja siðareglur um starfsemi og framkvæmd starfa útfararstjóra
· Að gæta hagsmuna útfararstjóra í hvívetna og vera í forsvari fyrir stéttina gagnvart
stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða..
· Að stuðla að fræðslu og upplýsingagjöf til félagsmanna.
· Að taka þátt í og vera í forsvari fyrir félagsmenn í samvinnu við systrafélög á
Norðurlöndum og í Evrópu.

3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því
1. Að skapa tengsl milli starfandi útfararstjóra hér á landi.
2. Að efna til kynningarfunda og fyrirlestra meðal félagsmanna um fagleg og félagsleg efni.
3. Að efla persónuleg kynni útfararstjóra m.a. með því að stofna til mannfagnaða.
4. Setja siðareglur um starfsemi og framkvæmd starfa útfararstjóra

II. Kafli

Félagsmenn
4. gr.
Félagið er samtök útfararstjóra sem starfa hjá sjálfstætt starfandi útfararstofum (þjónustum)
sem hafa til þess leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis.

Félagsmenn geta þeir útfarastjórar orðið sem hafa faglega yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd útfarar hjá starfandi útfararfyrirtæki. Skilyrði fyrir aðild er að fyrirtækið sem útfararstjórinn er í forsvari fyrir uppfyllt öll atriði sem sett eru fram í reglugerð ráðuneytisins. Hvert leyfi ráðuneytis (eitt fyrirtæki) veitir kjörgengi eins útfararstjóra í félagið.

Nú tilkynnir útfararstjóri stjórn félagsins að hann óski að gerast félagsmaður og nýtur hann þá félagsréttinda er stjórn hefur gengið úr skugga um að hann uppfylli öll skilyrði til inngöngu í félagið. Aukaaðild að félaginu með málfrelsi og tillögurétt eiga þeir sem fengið hafa útfararleyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis en heyra ekki undir 1.og 2.mgr. 4.greinar Umsókn um aðild skal vera skrifleg og send stjórn félagsins.

Heimila má almennum starfmönnum útfararfyrirtækja aðgang að félagsfundum, eftir því sem stjórn félagsins ákveður hverju sinni. Sama gildir um þá er í starfi sínu koma að útförum.

5. gr.
Félagið getur kjörið heiðursfélaga samkvæmt tillögu frá stjórn félagsins. Tillaga um slíkt kjör skal borin fram á aðalfundi og telst hún samþykkt ef ¾ hlutar fundarmana greiða henni atkvæði.

IV. kafli.

Stjórn félagsins
6. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum.
Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega til eins árs í senn.
Ef fleiri en tveir fá atkvæði í formanns- eða varaformannskjöri, en enginn þeirra helming greiddra atkvæða, skal kosið að nýju milli þeirra tveggja, er flest atkvæði hlutu í fyrri kosningu.
Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn, einn annað árið en tveir hitt.
Óheimilt er að kjósa sama mann til formanns og varaformanns oftar en tvisvar í röð. Óheimilt er að endurkjósa meðstjórnendur fyrr en ár er liðið frá því þeir gengu úr stjórn.
Stjórnin kýs sér sjálf gjaldkera og ritara.
Kosnir skulu einn endurskoðandi og einn varaendurskoðandi til eins árs.

7. gr.
Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum er lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess.

8. gr.
Nú kemur fram ósk að mál verði tekið til umfjöllunar og skal stjórn félagsins taka málið fyrir á næsta stjórnarfundi. Málsskotsgjald fer eftir umfangi hver máls en er að lágmarki 4.000,- krónur fyrir félagsmenn en 8.000,- krónur fyrir utanaðkomandi, enda sé tilfinnanlegt vinnuframlag við úrvinnslu málsins.
Stjórn getur tekið mál til umfjöllunar án málskotsgjalds sé það fordæmisgefandi fyrir félagsmenn þess eða að annað málefnalegt tilefni sé til þess.


V. kafli

Ýmis ákvæði
Fundir og fundarsköp

9.gr.
Formaður kveður stjórnina til funda þegar hann telur þess þörf eða einn meðstjórnenda óskar þess.
10.gr.

Stjórninni er skylt að halda félagsfundi eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Til félagsfunda skal stjórnin boða með bréfi til hvers einstaks félagsmanns með hæfilegum fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála, er fjallað skal um á fundinum. Fimmti hluti félagsmanna hið fæsta hefur rétt til að krefjast félagsfundar. Skal það gert skriflega og greina fundarefni. Skal stjórnin boða til fundarins með venjulegum hætti, sem haldinn skal innan fjórtán daga frá því að henni barst krafa þar um og geta skal fundarefnis í fundarboði. Nú verður stjórnin ekki við kröfu um slíkt fundarhald og geta þá þeir, sem fundarins krefjast, boðað til hans sjálfir.

11. gr.
Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en í nóvembermánuði ár hvert. Skal boðað til hans bréflega með viku fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Aðalfundi stýrir fundarstjóri, sem kosinn er til þess af fundarmönnum og tilnefnir hann fundarritara. Hann rannsakar í fundarbyrjun, hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og lýsir því síðan hvort svo sé. Fundarstjóri skal stjórna fundinum samkvæmt samþykktum félagsins og almennum reglum um fundarsköp.

Dagskrá aðalfundar skal vera:
1. Kosning fundarstjóra.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Lagður fram ársreikningur félagsins til afgreiðslu.
4. Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins, ef um þær er að ræða.
5. Kosning formanns.
6. Kosning varaformanns.
7. Kosning meðstjórnenda.
8. Kosning endurskoðanda og varaendurskoðanda.
9. Tillaga stjórnar um árstillag félagsmanna næsta reikningsár.
10. Önnur mál.
Atkvæðagreiðslur fara fram eftir því, sem fundarstjóri kveður nánar á um. Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram, ef einhver fundarmanna krefst þess.




12. gr.
Á fundum félagsins ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála, nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum þessum.

13. gr.
Haldin skal gerðabók þar sem í skal rita stutta skýrslu um það, sem gerist á félagsfundum, einkum allar fundarsamþykktir. Fundargerð skal lesin upp í fundarlok og borin undir atkvæði. Fundarstjóri og fundarritari undirrita síðan fundargerðina. Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun þess, er farið hefur fram á fundinum.
Í sérstaka gerðabók skal einnig skrá skýrslu um stjórnarfundi með sama hætti og undirrita hana allir viðstaddir stjórnarmenn.

Fjármál

14. gr.
Félag íslenskra útfararstjóra er ekki rekið í hagnaðarskyni, heldur skal nota allar eignir og tekjur þess til að vinna að markmiði þess. Fjárhagur FÍÚ er óháður fjárhag einstakra félagsmanna. Enginn félagsmaður á hlutdeild í eignum félagsins né er nokkur þeirra ábyrgur fyrir greiðslum skuldbindinga þess. Að því leyti sem til skattlagningar kemur er félagið sjálfstæður skattaðili.

15. gr.
Reikningsár félagsins er frá 1. september til 31. ágúst.


16.gr.
Aðalfundur ákveður árstillag félagsmanna fyrir hvert ár fyrirfram. Skal stjórnin leggja fram tillögu þar að lútandi. Stjórn félagsins er heimilt að lækka árstillag þeirra félagsmanna sem ekki starfa við útfararþjónustu.
Félagsmenn 67 ára og eldri greiði ekki árstillag til félagsins. Stjórn félagsins er heimilt að fella niður árstillög, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Nú hefur félagsmaður eigi greitt árstillag sitt fyrir tvö reikningsár. Skal þá stjórnin fella hann af félagaskrá, sbr. 6. gr. Félagsréttindi öðlast hann á ný, er hann hefur greitt skuld sína við félagið. Inntökugjald í félagið er 50% af árstillagi, enda greiði félagsmaður ekki árstillag það reikningsár, er hann gerist félagsmaður. Félagsmaður, sem fer úr félaginu hvort heldur vegna úrsagnar eða af öðrum ástæðum, á ekki endurkröfurétt til greiddra félagsgjalda.

Breytingar á samþykktum

17.gr.
Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins eða um félagsslit skal ítarlega getið í fundarboði og skulu þær bornar fram á aðalfundi. Öðlast þær tillögur aðeins gildi ef 2/3 hlutar greiddra atkvæða eru með þeim. Þó getur félagsfundur gert breytingar á samþykktum þessum ef enginn félagsmaður greiðir atkvæði gegn breytingartillögu sem fram er borin.

Þannig samþykkt á Stofnfundi Félags íslenskra útfararstjóra 28.07.2005.

0 Comments:

<< Home