28.7.05

Siðareglur FÍÚ

Siðareglur 
(Codex ethicus - general principles of good practice)

Félags íslenskra útfararstjóra

Kafli 1. Almenn ákvæði
1. gr.Allir félagsmenn í Félagi íslenskra útfararstjóra (FÍÚ) skulu í störfum sínum fara eftir siðareglum þessum. Félagsmenn skulu einnig sjá til þess að starfsmenn þeirra fylgi reglunum.
2. gr.Félagsmenn skulu fylgja þeirri grundvallarreglu að starfsmenn þeirra vekji traust og virðingu út á við, stundi fagleg vinnubrögð og styrki samstarf og samstöðu félagsmanna.
3. gr.Félagsmenn skulu leitast við að auka faglega þekkingu sína og fylgjast vel með breytingum á þjóðfélagsaðstæðum. Félagsmönnum ber að fara eftir:a) Lögum og reglugerðum sem gilda um starfsemi útfararþjónustu og uppfylla að fullu skilyrði dóms- og kirkjumálaráðuneytis sem sett eru fyrir veitingu leyfisins. b) Skráðum og óskráðum reglum um góða útfararþjónustuvenju (viðskiptavenjur).Stjórn félagsins sker úr um hvað telst góð útfararþjónustuvenja. Varði úrskurður stjórnar einstakan ákveðinn útfararstjóra getur hann skotið málinu til félagsfundarFélags íslenskra útfararstjóra . Málsskot frestar ekki ákvörðun stjórnar en félagsfundur getur fellt hann úr gildi.
Kafli 2. Samskipti við viðskiptavini.
5. gr.
Félagsmenn skulu ekki taka að sér verkefni sem brjóta í bága við lög, opinberar reglugerðir,siðareglur þessar eða góða útfararþjónustuvenju. Sama gildir ef skilyrði eru bersýnilega ósanngjörn. Áður en félagsmenn taka að sér verkefni ber þeim að fullvissa sig um að engum öðrum félagsmanni hafi verið falið undirbúningur útfarar. Ef félagsmanni hefur verið falið undirbúningur útfarar er öðrum félagsmanni óheimilt að taka það að sér nema skýrt sé að nánustu aðstandendur hafi óskað eftir því. Óski viðskiptavinur eftir því að útfararstjóri vinni að tilteknu verkefni með öðrum útfararþjónustum, skal sá útfararstjóri samþykkja það sem fyrst hafði verið falið verkefnið.
6. gr.Félagsmaður skuldbindur sig til, þegar honum er falið verkefni, að afla sem gleggstra upplýsinga um hvað í því felst. Félagsmenn skulu ávallt veita eins réttar og návæmar upplýsingar um fyrirkomulag útfarar og kostnað eins og kostur er og þeim ber lagaskylda til.
7. gr.Verkefnaöflun skal fara fram á þann hátt að ekki brjóti í bága við siðareglur þessar.Félagsmaður skal ekki, hvorki á beinan né óbeinan hátt, falast eftir verkefni sem hann veit eða má vita að hefur verið falið öðrum félagsmanni,
8. gr.Markaðsöflun útfararstjóra, þar með talið með auglýsingum, skal ekki byggð á röngum,villandi eða ófullnægjandi upplýsingum. Auglýsingar skulu vera málefnalegar og efnislega réttar og skulu ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála. Útfararstjórar skulu í hvívetna gæta ákvæða samkeppnislaga í starfsemi sinni.
9. gr.Félagsmenn og starfsmenn þeirra eru bundnir þagnarskyldu um málefni viðskiptavina sem þeir fá vitneskju um í starfi. Þegar starfsemi félagsmanns hættir skal séð til þess að skjöl fyrirtækisins komist ekki í rangar hendur.

Kafli 3. Samskipti útfararstjóra
10. gr.Útfararstjórar skulu hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þeir skulu sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum stéttarinnar.
11. gr.Útfararstjóri má einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars útfararstjóra á málefnalegum grundvelli, og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til.
12. gr.Ef útfararstjóra er falið verkefni, sem annar útfararstjóri hefur áður sinnt, skal hann ekki hefja vinnu við það fyrr en hann hefur fullvissað sig um að þjónustu fyrri útfararstjóra hafi verðið hafnað eða verði sagt upp án tafar af nánasta aðstandenda.
13. gr.Útfararstjóra sem leitar aðstoðar eða álits annars útfararstjóra um tiltekna þætti verkefnis er hann vinnur að, er persónulega ábyrgur fyrir greiðslu á útlögðum kostnaði og þóknun þess útfararstjóra , nema um annað sé beinlínis samið.
14. gr.Í innbyrðis deilum ber útfararstjóra , sem hyggst kæra annan útfararstjóra fyrir yfirvöldum eða dómstólum, að gera honum og stjórn Félags íslenskra útfararstjóra aðvart áður og gefa þeim kost á að tjá sig um málefnið.
Kafli 4. Önnur ákvæði
15. gr.Stjórn FÍÚ úrskurðar um hvað teljast góðir útfararsiðir. Stjórnin skal einnig taka afstöðu til kvörtunarmála milli félagsmanna gegn greiðslu á málsskotsgjaldi sem ákveðið er í lögum FÍÚ. Áður en stjórnin kemst að niðurstöðu skal viðkomandi gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Vilji félagsmaður kvarta yfir opinberu stjórnvaldi skal sú kvörtun ávallt borin fram fyrir milligöngu FÍÚ.
16. gr.Stjórn FÍÚ tekur afstöðu til kvartana frá viðskiptavinum vegna félagsmanna og vegna ágreinings milli félagsmanna innbyrðis. Stjórnin skal jafnframt setja sérstakar vinnureglur um meðferð slíkra mála, sem bornar skulu undir félagsfund (málsskotsgjald). Félagsmenn eru bundnir af úrskurðum stjórnar varðandi ágreining milli félagsmanna.
17. gr.Útfararstjóri ber persónulega ábyrgð á störfum sínum og starfsmanna sinna.Útfararstjóri skal hafa góða skipan á skrifstofu sinni, vaka yfir störfum starfsliðs síns og líta eftir því, að starfsmenn fylgi góðum útfararþjónustuháttum.Ber útfararstjóra að sjá til þess, að bókhald skrifstofunnar, varsla fjármuna, skjala og annarra gagna sé í samræmi við lög og góða venju í þeim efnum.Útfararstjóri skal ekki láta óviðkomandi hafa aðgang að skjölum eða öðrum gögnum skrifstofunnar, er varðað geta viðskiptamenn hans.
Kafli 5. Um viðurlög o. fl.
18. gr.Stjórn félagsins hefur eftirlit með því, að reglum þessum sé fylgt. Hún hefur um það samráð við stjórnvöld eftir því sem ástæða er til. Stjórn félagins skal leitast við að leysa úr deilum útfararstjóra innbyrðis. Stjórn félagins sker úr ágreiningi um skilning á reglum þessum. Útfararstjóra er skylt, að boði stjórnarinnar, að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á reglum þessum. Ber útfararstjóra í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum stjórnarinnar.
Nú gerist útfararstjóri sekur um brot á góðum útfararþjónustuháttum samkvæmt úrskurði eða álitsgerð stjórnar FÍÚ og er þá stjórn heimilt, að tilkynna það dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
19. gr.Framanskráðar reglur má ekki skoða sem tæmandi taldar um góða útfararþjónustuhætti.
20. gr.Siðareglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi Félags íslenskra útfararstjóra.
Þannig samþykkt á framhaldsaðalfundi Félags íslenskra útfararstjóra þann …





Vinnureglur Siðanefndar
1. Hlutverk Siðanefndar er að úrskurða um kærur sem henni berast um brot á siðareglum eins og þær eru á hverjum tíma.
2. Siðanefnd skal halda gjörðabók.
3. Kærur til Siðanefndar skulu vera skriflegar og berast FÍÚ. Kæruefni skal vera afmarkað með augljósum hætti.
4. Stjórn FÍÚ sendir afrit kæru og meðfylgjandi gagna til allrasiðanefndarmanna og afrit kærunnar til þess sem kærður er.
5. Siðanefnd tekur mál fyrir í þeirri röð sem þau berast. Ef mál berast samtímis ræður dagsetning.
6. Siðanefnd kannar hvort einhver nefndarmanna sé vanhæfur að fjalla um kærumálið vegna tengsla við kæranda eða kærða. Úrskurður nefndarinnar er endanlegur.
7. Við upphaf málsmeðferðar kannar Siðanefnd hvort þeim kröfum, sem siðareglur gera til kærenda, hafi verið fullnægt. Sé svo ekki skal kæru vísað frá og kæranda skýrt skriflega frá orsökum frávísunar.
8. Siðanefnd skal bjóða báðum aðilum máls að skýra mál sitt á fundum nefndarinnar. Hún skal einnig óska eftir skriflegri greinargerð beggja aðilja.
9. Siðanefnd ákveður hverjir aðrir skulu koma fyrir nefndina, og hvaða viðbótargagna skuli aflað.
10. Kæranda er heimilt að draga kæru sína til baka hvenær sem er áður en Siðanefnd hefur undirritað úrskurð sinn.
11. Siðanefnd kveður upp rökstuddan, skriflegan úrskurð. Þegar um er að ræða brot á siðareglum skal viðkomandi grein tilgreind.
12. Siðanefnd ritar fullskipuð undir úrskurði. Sératkvæði skulu birt með úrskurði meirihlutans.
13. Siðanefnd nafngreinir ekki í úrskurði sínum kæranda eða aðra aðila máls sem eiga um sárt að binda ef hún telur að nafnbirting valdi þeim auknum sársauka.
14. Siðanefnd úrskurðar í kærumálum eftir ákvæðum siðareglna eins og þær eru á hverjum tíma og hefur eftir því sem við á hliðsjón af fordæmum í eldri úrskurðum.
15. Siðanefnd fer með gögn mála, önnur en kæru og úrskurð nefndarinnar, sem trúnaðarmál og fjallar ekki um einstök mál opinberlega.
16. Sé óafgreiddu kærumáli fyrir Siðanefnd skotið til dómsstóls, vísar nefndin málinu samstundis frá, á hvaða stigi sem málið kanna að vera innan Siðanefndar.