Stöð 2 29. ágúst 21:14
Óþarfi sé að fjarlægja aukahlutiSamkvæmt nýrri reglugerð er útfarastjórum gert að finna alla aukahluti sem græddir hafa verið í hinn látna áður en hann er grafinn eða brenndur. Landlæknir hefur óskað eftir breytingum á reglugerðinni. Útfarastjórar hafi ekki menntun til slíkra aðgerða og óþarfi sé í raun að fjarlægja alla aukahluti.
Björn Bjarnason skrifaði undir nýja reglugerð um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu í byrjun júlímánaðar þar sem fram kemur í 7. grein: „Þá ber þeim er annast útfararþjónustu einnig að tryggja að öll efni, s.s. plast eða aðrir hlutir, séu fjarlægðir úr hinum látna eða kistunni til að koma í veg fyrir sprengihættu við líkbrennslu og mengun við líkbrennslu eða greftrun.“
Með þessari grein er útfarastjórum skylt að leita eftir ýmsum aukahlutum, s.s. mjaðmaliðum, gangráði og öðru. Landlæknir hefur gert athugasemd við þessa grein sem og Félag íslenskra útfarastjóra. Rúnar Geirmundsson, formaður félagsins, segir í raun engin rök með því að útfararstjórar geri þetta. Þeir hafi enga læknisfræðilega kunnáttu til þess og heldur ekki aðstöðu.
Rúnar segir það í raun eiga að vera á ábyrgð þess læknis sem gefur út dánarvottorð að hafa eftirlit með ígræðslum í látnum einstaklingum enda komi fram á dánarvottorðinu að hinn látni sé tilbúinn til greftrunar eða brennslu og ekki þurfi að fjarlægja neitt úr honum. Rúnar segir enn fremur að það sé útilokað fyrir útafarastjóra að vita hvort hinn látni sé með eitthvað innvortis.
Í tillögu landlæknis að breyttu orðalagi 7. greinarinnar kemur fram að „gangráð, gervilimi og önnur efni, búnað eða hjálpartæki í hinum látna þurfi ekki að fjarlægja en ef um eitthvað óvenjulegt er að ræða beri útfarastofunni að hafa samráð við lækni.“
Svo á eftir að koma í ljós hvort tekið verði tillit til tillögunnar.
(Heimild Vísir.is - http://www.visir.is/otharfi-se-ad-fjarlaegja-aukahluti/article/2005508290390)