29.7.05

Frétt RÚV um stofnun Félags íslenskra útfararstjóra

Fréttin var fyrst birt: 29.07.2005 12:20
Síðast uppfærð: 29.07.2005 12:10
Félag útfararstjóra stofnað í gær
Félag íslenskra útfararstjóra var stofnað í gærkvöld. Tilefnið er meðal annars óánægja útfararstjóra með reglugerð frá dómsmálaráðuneytinu, sem taka á gildi 1. október. Samkvæmt henni þurfa útfararstjórar til dæmis að sjá til þess að allir plasthlutir séu fjarlægðir úr hinum látna fyrir brennslu.Útfararstjórar segja það ekki á sínu verksviði og aðstoðarlandlæknir sagði í fréttum í vikunni að slíkt væri heldur ekki á færi lækna. Rúnar Geirmundsson var kosinn formaður félagsins á fundinum í gær en 10 útfararstjórar sóttu fundinn. Þá voru á fundinum samþykkt lög félagsins og siðareglur þess.


(Upprunaleg heimild: http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=109065&e342DataStoreID=2213589, en fréttin er dottin út úr safni RÚV en það má finna afrita af henni hér: http://wayback.vefsafn.is/wayback/20051102212841/http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2574128&e342RecordID=109065&e342DataStoreID=2213589 )

28.7.05

Siðareglur FÍÚ

Siðareglur 
(Codex ethicus - general principles of good practice)

Félags íslenskra útfararstjóra

Kafli 1. Almenn ákvæði
1. gr.Allir félagsmenn í Félagi íslenskra útfararstjóra (FÍÚ) skulu í störfum sínum fara eftir siðareglum þessum. Félagsmenn skulu einnig sjá til þess að starfsmenn þeirra fylgi reglunum.
2. gr.Félagsmenn skulu fylgja þeirri grundvallarreglu að starfsmenn þeirra vekji traust og virðingu út á við, stundi fagleg vinnubrögð og styrki samstarf og samstöðu félagsmanna.
3. gr.Félagsmenn skulu leitast við að auka faglega þekkingu sína og fylgjast vel með breytingum á þjóðfélagsaðstæðum. Félagsmönnum ber að fara eftir:a) Lögum og reglugerðum sem gilda um starfsemi útfararþjónustu og uppfylla að fullu skilyrði dóms- og kirkjumálaráðuneytis sem sett eru fyrir veitingu leyfisins. b) Skráðum og óskráðum reglum um góða útfararþjónustuvenju (viðskiptavenjur).Stjórn félagsins sker úr um hvað telst góð útfararþjónustuvenja. Varði úrskurður stjórnar einstakan ákveðinn útfararstjóra getur hann skotið málinu til félagsfundarFélags íslenskra útfararstjóra . Málsskot frestar ekki ákvörðun stjórnar en félagsfundur getur fellt hann úr gildi.
Kafli 2. Samskipti við viðskiptavini.
5. gr.
Félagsmenn skulu ekki taka að sér verkefni sem brjóta í bága við lög, opinberar reglugerðir,siðareglur þessar eða góða útfararþjónustuvenju. Sama gildir ef skilyrði eru bersýnilega ósanngjörn. Áður en félagsmenn taka að sér verkefni ber þeim að fullvissa sig um að engum öðrum félagsmanni hafi verið falið undirbúningur útfarar. Ef félagsmanni hefur verið falið undirbúningur útfarar er öðrum félagsmanni óheimilt að taka það að sér nema skýrt sé að nánustu aðstandendur hafi óskað eftir því. Óski viðskiptavinur eftir því að útfararstjóri vinni að tilteknu verkefni með öðrum útfararþjónustum, skal sá útfararstjóri samþykkja það sem fyrst hafði verið falið verkefnið.
6. gr.Félagsmaður skuldbindur sig til, þegar honum er falið verkefni, að afla sem gleggstra upplýsinga um hvað í því felst. Félagsmenn skulu ávallt veita eins réttar og návæmar upplýsingar um fyrirkomulag útfarar og kostnað eins og kostur er og þeim ber lagaskylda til.
7. gr.Verkefnaöflun skal fara fram á þann hátt að ekki brjóti í bága við siðareglur þessar.Félagsmaður skal ekki, hvorki á beinan né óbeinan hátt, falast eftir verkefni sem hann veit eða má vita að hefur verið falið öðrum félagsmanni,
8. gr.Markaðsöflun útfararstjóra, þar með talið með auglýsingum, skal ekki byggð á röngum,villandi eða ófullnægjandi upplýsingum. Auglýsingar skulu vera málefnalegar og efnislega réttar og skulu ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála. Útfararstjórar skulu í hvívetna gæta ákvæða samkeppnislaga í starfsemi sinni.
9. gr.Félagsmenn og starfsmenn þeirra eru bundnir þagnarskyldu um málefni viðskiptavina sem þeir fá vitneskju um í starfi. Þegar starfsemi félagsmanns hættir skal séð til þess að skjöl fyrirtækisins komist ekki í rangar hendur.

Kafli 3. Samskipti útfararstjóra
10. gr.Útfararstjórar skulu hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þeir skulu sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum stéttarinnar.
11. gr.Útfararstjóri má einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars útfararstjóra á málefnalegum grundvelli, og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til.
12. gr.Ef útfararstjóra er falið verkefni, sem annar útfararstjóri hefur áður sinnt, skal hann ekki hefja vinnu við það fyrr en hann hefur fullvissað sig um að þjónustu fyrri útfararstjóra hafi verðið hafnað eða verði sagt upp án tafar af nánasta aðstandenda.
13. gr.Útfararstjóra sem leitar aðstoðar eða álits annars útfararstjóra um tiltekna þætti verkefnis er hann vinnur að, er persónulega ábyrgur fyrir greiðslu á útlögðum kostnaði og þóknun þess útfararstjóra , nema um annað sé beinlínis samið.
14. gr.Í innbyrðis deilum ber útfararstjóra , sem hyggst kæra annan útfararstjóra fyrir yfirvöldum eða dómstólum, að gera honum og stjórn Félags íslenskra útfararstjóra aðvart áður og gefa þeim kost á að tjá sig um málefnið.
Kafli 4. Önnur ákvæði
15. gr.Stjórn FÍÚ úrskurðar um hvað teljast góðir útfararsiðir. Stjórnin skal einnig taka afstöðu til kvörtunarmála milli félagsmanna gegn greiðslu á málsskotsgjaldi sem ákveðið er í lögum FÍÚ. Áður en stjórnin kemst að niðurstöðu skal viðkomandi gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Vilji félagsmaður kvarta yfir opinberu stjórnvaldi skal sú kvörtun ávallt borin fram fyrir milligöngu FÍÚ.
16. gr.Stjórn FÍÚ tekur afstöðu til kvartana frá viðskiptavinum vegna félagsmanna og vegna ágreinings milli félagsmanna innbyrðis. Stjórnin skal jafnframt setja sérstakar vinnureglur um meðferð slíkra mála, sem bornar skulu undir félagsfund (málsskotsgjald). Félagsmenn eru bundnir af úrskurðum stjórnar varðandi ágreining milli félagsmanna.
17. gr.Útfararstjóri ber persónulega ábyrgð á störfum sínum og starfsmanna sinna.Útfararstjóri skal hafa góða skipan á skrifstofu sinni, vaka yfir störfum starfsliðs síns og líta eftir því, að starfsmenn fylgi góðum útfararþjónustuháttum.Ber útfararstjóra að sjá til þess, að bókhald skrifstofunnar, varsla fjármuna, skjala og annarra gagna sé í samræmi við lög og góða venju í þeim efnum.Útfararstjóri skal ekki láta óviðkomandi hafa aðgang að skjölum eða öðrum gögnum skrifstofunnar, er varðað geta viðskiptamenn hans.
Kafli 5. Um viðurlög o. fl.
18. gr.Stjórn félagsins hefur eftirlit með því, að reglum þessum sé fylgt. Hún hefur um það samráð við stjórnvöld eftir því sem ástæða er til. Stjórn félagins skal leitast við að leysa úr deilum útfararstjóra innbyrðis. Stjórn félagins sker úr ágreiningi um skilning á reglum þessum. Útfararstjóra er skylt, að boði stjórnarinnar, að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti eða ágreiningi um skilning á reglum þessum. Ber útfararstjóra í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningum stjórnarinnar.
Nú gerist útfararstjóri sekur um brot á góðum útfararþjónustuháttum samkvæmt úrskurði eða álitsgerð stjórnar FÍÚ og er þá stjórn heimilt, að tilkynna það dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
19. gr.Framanskráðar reglur má ekki skoða sem tæmandi taldar um góða útfararþjónustuhætti.
20. gr.Siðareglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi Félags íslenskra útfararstjóra.
Þannig samþykkt á framhaldsaðalfundi Félags íslenskra útfararstjóra þann …





Vinnureglur Siðanefndar
1. Hlutverk Siðanefndar er að úrskurða um kærur sem henni berast um brot á siðareglum eins og þær eru á hverjum tíma.
2. Siðanefnd skal halda gjörðabók.
3. Kærur til Siðanefndar skulu vera skriflegar og berast FÍÚ. Kæruefni skal vera afmarkað með augljósum hætti.
4. Stjórn FÍÚ sendir afrit kæru og meðfylgjandi gagna til allrasiðanefndarmanna og afrit kærunnar til þess sem kærður er.
5. Siðanefnd tekur mál fyrir í þeirri röð sem þau berast. Ef mál berast samtímis ræður dagsetning.
6. Siðanefnd kannar hvort einhver nefndarmanna sé vanhæfur að fjalla um kærumálið vegna tengsla við kæranda eða kærða. Úrskurður nefndarinnar er endanlegur.
7. Við upphaf málsmeðferðar kannar Siðanefnd hvort þeim kröfum, sem siðareglur gera til kærenda, hafi verið fullnægt. Sé svo ekki skal kæru vísað frá og kæranda skýrt skriflega frá orsökum frávísunar.
8. Siðanefnd skal bjóða báðum aðilum máls að skýra mál sitt á fundum nefndarinnar. Hún skal einnig óska eftir skriflegri greinargerð beggja aðilja.
9. Siðanefnd ákveður hverjir aðrir skulu koma fyrir nefndina, og hvaða viðbótargagna skuli aflað.
10. Kæranda er heimilt að draga kæru sína til baka hvenær sem er áður en Siðanefnd hefur undirritað úrskurð sinn.
11. Siðanefnd kveður upp rökstuddan, skriflegan úrskurð. Þegar um er að ræða brot á siðareglum skal viðkomandi grein tilgreind.
12. Siðanefnd ritar fullskipuð undir úrskurði. Sératkvæði skulu birt með úrskurði meirihlutans.
13. Siðanefnd nafngreinir ekki í úrskurði sínum kæranda eða aðra aðila máls sem eiga um sárt að binda ef hún telur að nafnbirting valdi þeim auknum sársauka.
14. Siðanefnd úrskurðar í kærumálum eftir ákvæðum siðareglna eins og þær eru á hverjum tíma og hefur eftir því sem við á hliðsjón af fordæmum í eldri úrskurðum.
15. Siðanefnd fer með gögn mála, önnur en kæru og úrskurð nefndarinnar, sem trúnaðarmál og fjallar ekki um einstök mál opinberlega.
16. Sé óafgreiddu kærumáli fyrir Siðanefnd skotið til dómsstóls, vísar nefndin málinu samstundis frá, á hvaða stigi sem málið kanna að vera innan Siðanefndar.

Ályktun stofnfundar Félags íslenskra útfararstjóra þann 28. júlí 2005

Stofnfundur Félags Íslenskra útfararstjóra haldinn 28.júlí 2005

Ályktun

Fundurinn fagnar því að dómsmálaráðherra setji saman nefnd til að endurskoða reglugerð um útfararþjónustu.
Hins vegar lýsir yfir furðu sinni hverjir eru valdir í nefndina. 3 guðfræðingar.? Fundarmenn telja það fráleitt að formaður nefndarinnar skuli vera valin forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur, sem ekki hefur haft það traust sem þurft hefur meðal
þeirra útfararstjóra sem sjá um útfarir á stór Reykjavíkursvæðinu. Því skorar fundurinn á ráðherra að endurskoða ákvörðun sína og skipi í hana hæfa menn eins og frá starfandi útfararstjórum, ráðuneyti, óháðum söfnuði og
kannski einum guðfræðing.

Samþykkt samhljóða á fundinum

---------------------------------------------------------------------------------

Stofnfundur Félags Íslenskra úrfararstjóra haldinn 28.júlí 2005

Ályktun

Fundurinn fagnar ný útkominni reglugerð um kistur, greftrun og líkbrennslu. Fundurinn lýsir hinsvegar furðu sinni á 7.gr. þessarar reglugerðar og skorar á ráðherra að fella hana burt. Það er ófært að leggja það á ábyrgð útfararstjóra að hafa eftirlit með ígræðslum í látnum einstaklingum og sjá til þess að slíkir hlutir séu fjarðlægðir eftir andlát. Slíkt hlýtur að vera á ábyrgð þess læknis sem gefur út dánarvottorð enda í hans verkahring að sjá svo um að hinn látni sé tilbúinn til greftrunar eða brennslu. Telur fundurinn að við gerð þessarar greinar hafi verið um handvömm að ræða. Því beri að fella hana burt.

Samþykkt samhljóða á fundinum

Lög og samþykktir FÍÚ

Samþykktir
(laws and statutes)

Félags íslenskra útfararstjóra


I. kafli
Heiti félagsins, heimili og hlutverk

1. gr.
Félagið heitir “Félag íslenskra útfararstjóra “, skammstafað FÍÚ. Heimili þess og varnarþing
er í Reykjavík
2. gr. Tilgangur félagsins er:
· Að efla samheldni með útfararstjórum.
· Að viðhalda og auka faglega þekkingu félagsmanna
· Að setja siðareglur um starfsemi og framkvæmd starfa útfararstjóra
· Að gæta hagsmuna útfararstjóra í hvívetna og vera í forsvari fyrir stéttina gagnvart
stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða..
· Að stuðla að fræðslu og upplýsingagjöf til félagsmanna.
· Að taka þátt í og vera í forsvari fyrir félagsmenn í samvinnu við systrafélög á
Norðurlöndum og í Evrópu.

3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því
1. Að skapa tengsl milli starfandi útfararstjóra hér á landi.
2. Að efna til kynningarfunda og fyrirlestra meðal félagsmanna um fagleg og félagsleg efni.
3. Að efla persónuleg kynni útfararstjóra m.a. með því að stofna til mannfagnaða.
4. Setja siðareglur um starfsemi og framkvæmd starfa útfararstjóra

II. Kafli

Félagsmenn
4. gr.
Félagið er samtök útfararstjóra sem starfa hjá sjálfstætt starfandi útfararstofum (þjónustum)
sem hafa til þess leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis.

Félagsmenn geta þeir útfarastjórar orðið sem hafa faglega yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd útfarar hjá starfandi útfararfyrirtæki. Skilyrði fyrir aðild er að fyrirtækið sem útfararstjórinn er í forsvari fyrir uppfyllt öll atriði sem sett eru fram í reglugerð ráðuneytisins. Hvert leyfi ráðuneytis (eitt fyrirtæki) veitir kjörgengi eins útfararstjóra í félagið.

Nú tilkynnir útfararstjóri stjórn félagsins að hann óski að gerast félagsmaður og nýtur hann þá félagsréttinda er stjórn hefur gengið úr skugga um að hann uppfylli öll skilyrði til inngöngu í félagið. Aukaaðild að félaginu með málfrelsi og tillögurétt eiga þeir sem fengið hafa útfararleyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis en heyra ekki undir 1.og 2.mgr. 4.greinar Umsókn um aðild skal vera skrifleg og send stjórn félagsins.

Heimila má almennum starfmönnum útfararfyrirtækja aðgang að félagsfundum, eftir því sem stjórn félagsins ákveður hverju sinni. Sama gildir um þá er í starfi sínu koma að útförum.

5. gr.
Félagið getur kjörið heiðursfélaga samkvæmt tillögu frá stjórn félagsins. Tillaga um slíkt kjör skal borin fram á aðalfundi og telst hún samþykkt ef ¾ hlutar fundarmana greiða henni atkvæði.

IV. kafli.

Stjórn félagsins
6. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum.
Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega til eins árs í senn.
Ef fleiri en tveir fá atkvæði í formanns- eða varaformannskjöri, en enginn þeirra helming greiddra atkvæða, skal kosið að nýju milli þeirra tveggja, er flest atkvæði hlutu í fyrri kosningu.
Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn, einn annað árið en tveir hitt.
Óheimilt er að kjósa sama mann til formanns og varaformanns oftar en tvisvar í röð. Óheimilt er að endurkjósa meðstjórnendur fyrr en ár er liðið frá því þeir gengu úr stjórn.
Stjórnin kýs sér sjálf gjaldkera og ritara.
Kosnir skulu einn endurskoðandi og einn varaendurskoðandi til eins árs.

7. gr.
Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum er lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess.

8. gr.
Nú kemur fram ósk að mál verði tekið til umfjöllunar og skal stjórn félagsins taka málið fyrir á næsta stjórnarfundi. Málsskotsgjald fer eftir umfangi hver máls en er að lágmarki 4.000,- krónur fyrir félagsmenn en 8.000,- krónur fyrir utanaðkomandi, enda sé tilfinnanlegt vinnuframlag við úrvinnslu málsins.
Stjórn getur tekið mál til umfjöllunar án málskotsgjalds sé það fordæmisgefandi fyrir félagsmenn þess eða að annað málefnalegt tilefni sé til þess.


V. kafli

Ýmis ákvæði
Fundir og fundarsköp

9.gr.
Formaður kveður stjórnina til funda þegar hann telur þess þörf eða einn meðstjórnenda óskar þess.
10.gr.

Stjórninni er skylt að halda félagsfundi eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Til félagsfunda skal stjórnin boða með bréfi til hvers einstaks félagsmanns með hæfilegum fyrirvara. Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála, er fjallað skal um á fundinum. Fimmti hluti félagsmanna hið fæsta hefur rétt til að krefjast félagsfundar. Skal það gert skriflega og greina fundarefni. Skal stjórnin boða til fundarins með venjulegum hætti, sem haldinn skal innan fjórtán daga frá því að henni barst krafa þar um og geta skal fundarefnis í fundarboði. Nú verður stjórnin ekki við kröfu um slíkt fundarhald og geta þá þeir, sem fundarins krefjast, boðað til hans sjálfir.

11. gr.
Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en í nóvembermánuði ár hvert. Skal boðað til hans bréflega með viku fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Aðalfundi stýrir fundarstjóri, sem kosinn er til þess af fundarmönnum og tilnefnir hann fundarritara. Hann rannsakar í fundarbyrjun, hvort löglega hafi verið til fundarins boðað og lýsir því síðan hvort svo sé. Fundarstjóri skal stjórna fundinum samkvæmt samþykktum félagsins og almennum reglum um fundarsköp.

Dagskrá aðalfundar skal vera:
1. Kosning fundarstjóra.
2. Skýrsla stjórnar.
3. Lagður fram ársreikningur félagsins til afgreiðslu.
4. Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins, ef um þær er að ræða.
5. Kosning formanns.
6. Kosning varaformanns.
7. Kosning meðstjórnenda.
8. Kosning endurskoðanda og varaendurskoðanda.
9. Tillaga stjórnar um árstillag félagsmanna næsta reikningsár.
10. Önnur mál.
Atkvæðagreiðslur fara fram eftir því, sem fundarstjóri kveður nánar á um. Þó skal skrifleg atkvæðagreiðsla fara fram, ef einhver fundarmanna krefst þess.




12. gr.
Á fundum félagsins ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála, nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum þessum.

13. gr.
Haldin skal gerðabók þar sem í skal rita stutta skýrslu um það, sem gerist á félagsfundum, einkum allar fundarsamþykktir. Fundargerð skal lesin upp í fundarlok og borin undir atkvæði. Fundarstjóri og fundarritari undirrita síðan fundargerðina. Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun þess, er farið hefur fram á fundinum.
Í sérstaka gerðabók skal einnig skrá skýrslu um stjórnarfundi með sama hætti og undirrita hana allir viðstaddir stjórnarmenn.

Fjármál

14. gr.
Félag íslenskra útfararstjóra er ekki rekið í hagnaðarskyni, heldur skal nota allar eignir og tekjur þess til að vinna að markmiði þess. Fjárhagur FÍÚ er óháður fjárhag einstakra félagsmanna. Enginn félagsmaður á hlutdeild í eignum félagsins né er nokkur þeirra ábyrgur fyrir greiðslum skuldbindinga þess. Að því leyti sem til skattlagningar kemur er félagið sjálfstæður skattaðili.

15. gr.
Reikningsár félagsins er frá 1. september til 31. ágúst.


16.gr.
Aðalfundur ákveður árstillag félagsmanna fyrir hvert ár fyrirfram. Skal stjórnin leggja fram tillögu þar að lútandi. Stjórn félagsins er heimilt að lækka árstillag þeirra félagsmanna sem ekki starfa við útfararþjónustu.
Félagsmenn 67 ára og eldri greiði ekki árstillag til félagsins. Stjórn félagsins er heimilt að fella niður árstillög, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Nú hefur félagsmaður eigi greitt árstillag sitt fyrir tvö reikningsár. Skal þá stjórnin fella hann af félagaskrá, sbr. 6. gr. Félagsréttindi öðlast hann á ný, er hann hefur greitt skuld sína við félagið. Inntökugjald í félagið er 50% af árstillagi, enda greiði félagsmaður ekki árstillag það reikningsár, er hann gerist félagsmaður. Félagsmaður, sem fer úr félaginu hvort heldur vegna úrsagnar eða af öðrum ástæðum, á ekki endurkröfurétt til greiddra félagsgjalda.

Breytingar á samþykktum

17.gr.
Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins eða um félagsslit skal ítarlega getið í fundarboði og skulu þær bornar fram á aðalfundi. Öðlast þær tillögur aðeins gildi ef 2/3 hlutar greiddra atkvæða eru með þeim. Þó getur félagsfundur gert breytingar á samþykktum þessum ef enginn félagsmaður greiðir atkvæði gegn breytingartillögu sem fram er borin.

Þannig samþykkt á Stofnfundi Félags íslenskra útfararstjóra 28.07.2005.

Stjórn Félags íslenskra útfararstjóra

Stjórn Félags íslenskra útfararstjóra skipa:
Rúnar Geirmundsson, formaður
Inger Steinsson, varaformaður

Ísleifur Jónsson, meðstjórnandi
Sverrir Einarsson, meðstjórnandi
Eyþór Eðvarðsson, meðstjórnandi

Þann 8. júlí 2005 skrifaði Björn Bjarnason undir nýja reglugerð (669/2005) um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu.

669/2005
REGLUGERÐum kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu.
I. KAFLIGildissvið og skilgreiningar.1. gr.Gildissvið.Reglugerð þessi tekur til allra líkkistna sem nota á við greftrun eða líkbrennslu í skilningi laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu svo og duftkerja. Jafnframt tekur hún til skilyrða fyrir framkvæmd líkbrennslu og annarra atriða þar að lútandi.
2. gr.Markmið.Markmiðið með reglugerð þessari er að tryggja að líkkistuframleiðendur og starfsmenn útfararstofa noti þær líkkistur og umbúnað sem getið er um í reglugerð þessari í tengslum við greftrun, líkbrennslu og flutning á líkum innan lands og utan. Þannig ætti mengun við niðurbrot kistu eða duftkers í jarðvegi og við líkbrennslu að verða í lágmarki, ásamt því að tryggja öryggi við líkbrennslu. Enn fremur miðar hún að því að skýra ákvæði, er varða framkvæmd líkbrennslu, í lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, og vera þeim til fyllingar.
3. gr.Skilgreiningar.Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:Grafarkista er líkkista sem nota skal við greftrun.Brennslukista er líkkista sem nota skal við líkbrennslu.Flutningsumbúnaður er líkkista og annar búnaður, s.s. líkpoki, sem nota skal til flutnings á líki milli landshluta og landa.Duftker er kerílát sem aska látins manns er varðveitt í eða jarðsett í.
II. KAFLIKistur.4. gr.Grafarkistur.Grafarkistur skulu fullnægja eftirfarandi skilyrðum:Gerð: Grafarkistur skulu ekki vera lengri að utanmáli en 230 cm, ekki hærri en 80 cm og ekki breiðari en 100 cm, þar með talin handföng og sökkull (fætur). Grafarkistur skulu vera úr efni sem samlagast jarðvegi í kirkjugarði á eðlilegum tíma og hindrar ekki náttúrulegt niðurbrot. Þær skulu enn fremur vera loft- og vökvaheldar. Þegar þess er þörf skal kítta saman undir- og yfirkistu.Efniviður: Allt óvatnsvarið efni, s.s. gegnheill viður, spónaplötur (E1) og MDF (Medium Density Fiberboard).Handföng: Handföng skulu vera úr tré eða plasti, sem hefur eðlilegt niðurbrot og samlagast jarðvegi og valda ekki mengun. Sé um reipi að ræða skulu þau vera gerð úr trefjum sem tilheyra plönturíkinu, s.s. pappa, hampi, sísal eða öðrum ómengandi efnum. Aðrar tegundir handfanga eru ekki leyfðar.Áfastar kistuskreytingar: Áfastar kistuskreytingar, s.s. krossar og skrautmunstur (lassínur), skulu unnar úr niðurbrjótanlegu efni sem samlagast jarðvegi. Skreytingar úr öðrum efnum ber að fjarlægja af kistu fyrir jarðsetningu. Efni sem nota má eru: MDF, maísmassi, spónaplötumassi, masonit og viðurkennt niðurbrjótanlegt plast. Lausar kistuskreytingar: Lausar kistuskreytingar, s.s. burðarvirki og festingar blóma og kransa, skulu vera úr vistvænu og viðurkenndu niðurbrjótanlegu efni. Vottun þar um skal liggja fyrir hjá viðkomandi blómasala.Yfirborðsmeðhöndlun: Efni í málningu eða annarri yfirborðsmeðhöndlun á grafarkistu má ekki geyma þungmálma eða önnur mengandi efni. Enn fremur mega kistur ekki vera plastklæddar.Kistuloksskrúfur: Kistuloksskrúfur mega hvorki vera gerðar úr óniðurbrjótanlegu plasti né skreyttar með sink- eða blýskrauti. Vottun frá framleiðanda um efnisgerð skal liggja fyrir hjá viðkomandi útfararstofu.Samsetningarefni: Málmefni, s.s. vinklar, skrúfur, naglar og hefti mega ekki vega meira en 200 grömm í hverri kistu.Límefni: Lím verður að vera niðurbrjótanlegt og hafa vistvænan stimpil.Innri umbúnaður: Innri umbúnaður, s.s. líkklæði, sæng, koddi og blæja, skal vera úr niðurbrjótanlegu efni sem samlagast jarðvegi. Óheimilt er að nota einangrunarefni, s.s. glerull, steinull og plast. Líkpoka eða blikkkistu (zink) ber að fjarlægja að fengnu leyfi héraðslæknis.Vottun um efni í kistu, fasta fylgihluti og kistuloksskrúfur skal liggja fyrir hjá viðkomandi útfararstofu. Uppfylli grafarkista ekki framangreind skilyrði skal umsjónarmaður viðkomandi kirkjugarðs gefa um það skýrslu til yfirstjórnar kirkjugarðsins, áður en umsókn um greftrun er afgreidd.
5. gr.Brennslukistur.Brennslukistur skulu fullnægja eftirfarandi skilyrðum:Gerð: Brennslukistur skulu ekki vera lengri að utanmáli en 230 cm, ekki hærri en 80 cm og ekki breiðari en 80 cm, þar með talin handföng og sökkull (fætur). Brennslukistur skulu vera úr efni sem ekki valda mengun við brennslu eins og getið er um hér að neðan. Efniviður: Kista skal vera úr gegnheilu timbri, óvatnsvörðu MDF og spónaplötum (E1). Efnisþykkt skal minnst vera 14mm. Handföng: Handföng skulu vera úr tré eða plasti, sem er sérstaklega ætlað til brennslu og valda ekki mengun. Sé um reipi að ræða skulu þau vera gerð úr efni sem tilheyrir plönturíkinu, s.s. pappa, hampi, sísal eða öðrum ómengandi efnum.Kistuskreytingar: Kistuskreytingar skulu unnar úr tré, masoníti eða hreinum pappa. Yfirborðsmeðhöndlun: Málning eða önnur yfirborðsmeðhöndlun má ekki innihalda þungmálma eða önnur mengandi efni. Enn fremur mega kistur ekki vera plastklæddar eða úr efnum sem valda sprengihættu eða ótímabærum eldi.Kistuloksskrúfur: Skrúfur (skreytingar) úr sinki eða blýi, eða skrúfur sem geyma slík efni, má ekki nota til brennslu. Samsetningarefni: Málmefni, s.s. vinklar, skrúfur, naglar og hefti mega ekki vega meira en 250 grömm í hverri kistu.Límefni: Lím verður að vera niðurbrjótanlegt og hafa vistvænan stimpil.Innri umbúnaður: Innri umbúnaður, s.s. líkklæði, sæng, koddi og blæja, skal vera úr efni sem valda ekki mengun við brennslu. Óheimilt er að nota einangrunarefni, s.s. glerull, steinull og plast. Ekki er leyfilegt að brenna kistu sem inniheldur líkpoka eða blikkkistu (zink).Vottun um efni í kistu, fasta fylgihluti og kistuloksskrúfur skal liggja fyrir hjá viðkomandi útfararstofu. Uppfylli brennslukista ekki framangreind skilyrði skal umsjónarmaður viðkomandi kirkjugarðs gefa um það skýrslu til stjórnar kirkjugarðsins, áður en umsókn um bálför er afgreidd.
6. gr.Flutningsumbúnaður.Þurfi að flytja lík á milli landshluta eða landa skal nota kistur og/eða líkpoka sem sérstaklega eru ætlaðir í því skyni og uppfylla skilyrði viðkomandi flutningsaðila.
7. gr.Skyldur aðila er annast útfararþjónustu fyrir líkbrennslu.Sá aðili sem annast undirbúning líkbrennslu skal láta lækni vita, ef álitið er að gangráður hafi ekki verið fjarlægður úr hinum látna. Þá ber þeim er annast útfararþjónustu einnig að tryggja að öll efni, s.s. plast eða aðrir hlutir, séu fjarlægðir úr hinum látna eða kistunni til að koma í veg fyrir sprengihættu við líkbrennslu og mengun við líkbrennslu eða greftrun.
III. KAFLIFramkvæmd greftrunar.8. gr.Útfararstofu þeirri, sem annast undirbúning greftrunar, ber skylda til þess að sjá um að sótt sé um grafreit til viðkomandi kirkjugarðsstjórnar með a.m.k. þriggja daga fyrirvara.Starfsmönnum kirkjugarðs, sem annast greftrun, er skylt að kanna tvisvar, með aðskildum hætti, umbeðna staðsetingu á þeim grafreit sem beðið er um og grafa skal í. Einnig skulu þeir tryggja að upplýsingar liggi fyrir um utanmál þeirrar kistu sem grafa skal. Við grafartökuna skal þess gætt að gott aðgengi sé jafnan að gröfinni og umhverfi snyrtilegt og jarðvegur fjarlægður sé því viðkomið. Grafstæði skal vera 2,50 x 1,20 metrar og grafstæði duftkera 0,75 x 0,75 metrar. Ganga skal þannig frá grafarbökkum að ekki hljótist hætta af. Til þess að verja grafarbakkana og auðvelda aðgengi getur verið heppilegt að leggja gönguplanka á bakkana. Notast skal við kaðla eða sigtæki til að láta kistu síga niður í gröf. Klæða má grafir að innan með grafardúk ef þurfa þykir, svo sem vegna hættu á jarðvegshruni. Þegar mokað er ofan í gröfina skal þess gætt að jarðvegur nái 20 – 30 cm upp fyrir grafarbakka til að mæta jarðvegssigi.
IV. KAFLIFramkvæmd líkbrennslu.9. gr.Bálstofur.Líkbrennsla hér á landi má eingöngu fara fram í bálstofum, sem viðurkenndar hafa verið af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og sem hlotið hafa starfsleyfi frá viðkomandi heilbrigðisyfirvöldum.Samþykki ráðuneytisins um staðsetningu og skipulag bálstofu í aðalatriðum er áskilið áður en bygging bálstofu hefst.Ekki má hefja starfrækslu bálstofu fyrr en ráðuneytinu hefur verið tilkynnt um hverjir séu stjórnendur hennar og ábyrgir fyrir því, að farið sé að ákvæðum reglugerðar þessarar.Bálstofum skal ávallt haldið í góðu lagi, tæki vel nothæf, starfslið vel þjálfað og nægjanlegt auk þess sem starfshættir skulu vera hreinlegir, skipulegir og viðeigandi.Stjórnendur bálstofu skulu setja verklagsreglur fyrir starfsemina. Ráðuneytinu skal afhent eintak af reglunum auk þess sem tilkynna þarf breytingar á þeim til ráðuneytisins. Eftirlit með rekstri bálstofa skal vera í höndum ráðuneytisins og heilbrigðisyfirvalda eða annarra aðila sem ráðuneytið tilnefnir sérstaklega. Ávallt skal veita eftirlitsaðilum aðgang að bálstofum óski þeir þess.
10. gr.Skilyrði líkbrennslu.Við hverja bálstofu skal halda bálfarabók. Færa skal inn í hana í samfelldri töluröð, sérhvert lík sem brennt er, fullt nafn hins látna, dánarstað, dánardægur, bálfarardag og afdrif öskunnar.
11. gr.Áður en líkbrennsla er framkvæmd skal sá aðili, sem sér um framkvæmd hennar, sjá til þess að fyrir liggi vottorð frá viðkomandi sýslumanni eða fulltrúa hans þess efnis að ekkert sé því til fyrirstöðu, af hálfu embættisins, að líkið verði brennt.
12. gr.Merkja skal vottorð það sem 11. gr. kveður á um með innfærslutölu líkbrennslu í bálfararbók og skulu slík vottorð geymd í skjalasafni bálstofu.Beiðnir aðstandenda um líkbrennslu, sbr. 3. og 4. mgr. 2. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, skulu vera skriflegar og geymast einnig í skjalasafni bálstofu.
13. gr.Um framkvæmd líkbrennslu og meðferð ösku.Óheimilt er að hreyfa við líki úr kistu fyrir líkbrennslu nema kistan uppfylli ekki ákvæði reglugerðar þessarar. Þegar öll skilyrði fyrir framkvæmd líkbrennslu eru uppfyllt skal brennslukistan og innihald hennar flutt til líkbrennslu í því ástandi sem útfararstofa hefur afhent hana.Hver brennslukista í umsjá bálstofu skal brennd ein og sér.Gæta skal ýtrustu varúðar varðandi auðkenni hins látna frá móttöku í líkhús þar til ösku hins látna hefur verið komið fyrir í duftkeri. Auðkenna skal hverja kistu með númeraplötum úr eldföstum leir.Stjórnendur og starfsmenn bálstofu skulu ávallt sýna virðingu við meðferð líks og framkvæmd líkbrennslu.
14. gr.Þegar að lokinni líkbrennslu skal öskunni safnað vandlega saman og búa um hana í þar til gerðu duftkeri, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Duftker þessi skulu gerð úr niðurbrjótanlegu efni, s.s. léttbrenndum leir, tré, hertum pappa eða öðru jafngildu efni. Þó má notast við ker úr haldmeira efni sem ekki veldur mengun í jarðvegi. Duftker sem ætluð eru til dreifingar ösku utan kirkjugarða skulu vera úr forgengilegu efni og brennd strax að lokinni dreifingu. Nota skal sérstök öskudreifingaker, þegar ösku er dreift á þar til gerða reiti innan kirkjugarðs.Ef aska hins látna er ekki jarðsett, þegar að lokinni líkbrennslu, skal duftkeri komið fyrir í læstum traustum skáp við bálstofuna. Þurfi að senda öskuna til annarra staða skulu forráðamenn bálstofu búa um kerið á tilhlýðilegan og öruggan hátt. Viðtakendur duftkersins skulu staðfesta móttöku þess skriflega. Viðtakendur geta verið aðstandendur, hlutaðeigandi sóknarprestar, starfsmenn í útfararþjónustu, kirkjugarðsverðir eða eftir atvikum forráðamenn bálstofu, sem svo skulu sjá um jarðsetningu öskunnar.
15. gr.Stjórnendur kirkjugarðs skulu hafa samráð við stjórnendur bálstofu, sem liggur að kirkjugarði, um efni þessarar reglugerðar, nema um sömu stjórn sé að ræða. Um duftreiti og kapellur innan kirkjugarða fer eftir þeim reglum sem settar hafa verið af stjórnendum viðkomandi kirkjugarðs.
16. gr.Vilji stjórnendur bálstofu koma upp duftreitum eða geymsluhvelfingum utan kirkjugarða, en þó í sambandi við bálstofuna, er slíkt heimilt að fengnu samþykki ráðuneytisins, sem setur reglur um slíka starfsemi.
17. gr.Ráðuneytið skal ávallt eiga aðgang að öllum bókum og skjölum bálstofu. Ef bálstofa er lögð niður skulu öll skjöl og bálfarabækur afhentar Þjóðskjalasafninu.
V. KAFLIAlmenn ákvæði.18. gr.Ef brotin eru fyrirmæli III. og IV. kafla reglugerðar þessarar, svo og fyrirmæli stjórnvalda sem byggð eru á þeim, getur ráðuneytið svipt bálstofu viðurkenningu skv. 9. gr. uns ráðuneytið telur tryggt að nægilegar úrbætur hafi átt sér stað.
19. gr. Brot gegn reglugerð þessari varða að öðru leyti viðurlögum skv. 52. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993.
20. gr.Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 50. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, öðlast gildi 1. október 2005. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 4/1951 um framkvæmd líkbrennslu.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 8. júlí 2005.
Björn Bjarnason.